Frá vinstri: Kristján Kári Ólafsson, Magnús Tryggvi Birgisson og Vilhjálmur Hólm Ásgeirsson.

Sex keppendur, á aldrinum sex til 14 ára, tóku þátt í unglingameistaramóti SSON sunnudaginn 24. apríl. Allir tefldu við alla og svo fór að Magnús Tryggvi Birgisson sigraði á mótinu með fullu húsi vinninga, fimm af fimm mögulegum. Hann er því unglingameistari SSON 2022. Í öðru sæti varð Vilhjálmur Hólm Ásgeirsson og Kristján Kári Ólafsson hafnaði í þriðja sæti.

Mótið fór fram í tengslum við hátíðina Vor í Árborg. Í tilefni af henni fór einnig fram skákkynning í Fischersetrinu þennan sama dag, sem margir lögðu leið sína á.

Nóg er um að vera í skáklífinu á Selfossi um þessar mundir en nú fer fram á vegum Skáksambands Íslands keppni í landsliðsflokki Skákþings Íslands í Bankanum Vinnustofu, þar sem keppt er um Íslandsmeistaratitilinn í skák. Áhorfendur eru velkomnir á skákstað en einnig er hægt að fylgjast með beinum útsendingum á netinu. Mótinu lýkur 1. maí. Nánari upplýsingar eru á skak.is.