Lög félagsins

30. nóvember 2020

LÖG FYRIR SKÁKFÉLAG SELFOSS OG NÁGRENNIS

1. gr.

Nafn félagsins er Skákfélag Selfoss og nágrennis, skammstafað SSON. Heimili þess og varnarþing er á Selfossi. Tilgangur félagsins er að auka þekkingu og áhuga á skák, meðal annars með því að standa fyrir skákviðburðum. Félagið skal vera í Skáksambandi Íslands.

Merki félagsins lítur svona út:

2. gr.

Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok maí hvert ár og skal stjórn félagsins boða til hans á tryggilegan hátt, með tölvupósti til félagsmanna og auglýsingu á vefsíðu félagsins, með minnst 10 daga fyrirvara. Aðalfundur fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins. Á aðalfundi skal kosin ný stjórn. Þar skulu lagðir fram ársreikningar félagsins til samþykktar. Einnig leggur fráfarandi stjórn fram milliuppgjör og skýrslu dagsetta 30.apríl á aðalfundar-ári, eða sem næst þeirri dagsetningu sem aðalfundur er haldinn. Þar skulu jafnan teknar ákvarðanir um taflstað, tafltíma og félagsgjöld, en aðalfundur getur þó falið stjórninni að taka ákvarðanir þar að lútandi. Á aðalfundi skulu og teknar ákvarðanir í öðrum málum sem varða félagið og starfsemi þess. Á aðalfundi ræður einfaldur meirihluti úrslitum, sbr. þó 6. gr.

Allir skráðir félagsmenn hafa rétt til setu á aðalfundi og hafa þar tillögurétt og málfrelsi. Atkvæðisrétt á aðalfundi hafa félagsmenn sem greitt hafa félagsgjöld vegna viðkomandi starfsárs og hafa verið skráðir í félagið í að minnsta kosti fjórar vikur fyrir fundinn.

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
2. Farið er yfir fundargerð síðasta aðalfundar.
3. Skýrsla stjórnar um starfsemi ársins.
4. Gjaldkeri leggur fram og útskýrir reikninga félagsins, sem síðan eru bornir undir atkvæði.
5. Lagabreytingar.
6. Ákvörðun um félagsgjöld.
7. Kosning stjórnar og varamanna í stjórn.
8. Kosning skoðunarmanns reikninga.
9. Önnur mál.

Falli atkvæði jafnt við stjórnarkjör á þann hátt að ekki verður úr því skorið hvaða fimm menn hafa náð kjöri til stjórnar skal kjósa aftur milli þeirra sem jafnir eru. Falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sami háttur skal hafður á við kosningu varamanna.

Heimilt er stjórn félagsins að efna til aukaaðalfundar ef aðstæður krefjast þess að mati stjórnar. Jafnframt getur stjórnin efnt til annarra félagsfunda, þar sem ekki fara fram hefðbundin aðalfundarstörf. Stjórninni er skylt að boða til aukaaðalfundar innan tveggja vikna ef 20 félagsmenn beina kröfu um slíkt til stjórnar.

3. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum og tveimur til vara og er kjörin til árs í senn. Stjórnin skiptir sjálf með sér verkum, þannig að hún kýs úr hópi sínum formann, gjaldkera og ritara. Stjórnin kemur fram fyrir hönd félagsins og tekur ákvarðanir um málefni þess milli aðalfunda, með hag þess að leiðarljósi. Stjórnin ber ábyrgð á gerðum sínum og gerir grein fyrir þeim á aðalfundi. Innan stjórnarinnar ræður einfaldur meirihluti atkvæða úrslitum; séu atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns.

Stjórnin ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Við rekstur þess skal hafa ráðdeild að leiðarljósi og gæta þess að stofna ekki til skuldbindinga umfram það sem tekjur félagsins geta staðið undir. Stjórnin sér til þess að haldin sé skrá yfir eignir félagsins.

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

Stjórnin skal funda eins oft og þörf krefur. Formanni er skylt að boða til stjórnarfundar ef meirihluti stjórnarmanna óskar eftir því. Rita skal fundargerðir vegna stjórnarfunda og skulu þær vistaðar með tryggum hætti.

Stjórnin sér til þess að haldin sé rafræn félagaskrá og að hún sé vistuð með tryggum hætti.

4. gr.

Allir sem þess óska geta orðið félagsmenn í SSON, hafi þeim ekki áður verið vikið úr félaginu. Þeir sem tefla fyrir hönd félagsins í Íslandsmóti skákfélaga eða öðrum skákmótum milli félagsliða skulu vera skráðir félagsmenn. Stjórninni er heimilt að víkja mönnum úr félaginu eða setja þá í keppnisbann, brjóti þeir alvarlega gegn hagsmunum þess. Ef vísa á manni úr félaginu eða setja hann í keppnisbann, þurfa a.m.k. fjórir af fimm stjórnar-mönnum að vera því sammála. Hafi manni verið vikið úr félaginu getur hann aðeins gengið í það aftur ef fjórir af fimm stjórnarmönnum samþykkja inngönguna.

Aðalfundur getur ákveðið að gera einstaklinga sem lagt hafa mikið af mörkum í þágu félagsins að heiðursfélögum. Stjórn félagsins leggur tillögur þar að lútandi fyrir aðalfund. Heiðursfélagar skulu undanþegnir skyldu til greiðslu félagsgjalda.

5. gr.

Stjórnin skal, að svo miklu leyti sem henni er unnt, sjá um að haldin séu skákmót innan félagsins, er öllum félagsmönnum sé heimill aðgangur að. Stjórnin velur skákstjóra er sjái um framkvæmd mótanna og hún skal einnig setja reglur um keppnina.

Félagið stendur árlega fyrir Opna Suðurlandsmótinu eða öðrum sambærilegum viðburði. Mótið er opið en sá sem hafnar efstur úr hópi þeirra sem eru annað hvort félagsmenn í skákfélagi á Suðurlandi eða búsettir á Suðurlandi fær sæmdarheitið Suðurlandsmeistari og hlýtur að launum Suðurlandsriddarann, sem varðveittur er í Fischersetrinu.

Stjórnin skal ár hvert senda sveit eða sveitir til keppni á Íslandsmóti skákfélaga.

6. gr.

Lög þessi skulu vera aðgengileg félagsmönnum. Lögunum er einungis hægt að breyta á aðalfundi, og því aðeins að 2/3 af þeim félagsmönnum er fundinn sitja og atkvæði greiða, greiði breytingum atkvæði. Tillögur um lagabreytingar skulu berast stjórn félagsins í síðasta tveimur vikum fyrir aðalfund. Ákvörðun þess efnis að félagið verði lagt niður er því aðeins gild að 3/4 þeirra atkvæðisbæru félagsmanna sem sækja fundinn greiði henni atkvæði. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess renna til frístunda- og menningardeildar Sveitarfélagsins Árborgar.

7. gr.

Um vafaatriði varðandi túlkun á lögum þessum hefur aðalfundur úrskurðarvald en milli aðalfunda sker stjórnin úr um slík vafaatriði.