Sigurvegari mótsins, Davíð Kjartansson, með Suðurlandsriddarann

Opna Suðurlandsmótið í skák var haldið í Skyrgerðinni í Hveragerði helgina 27.‒28. nóvember 2021. Á mótinu, sem SSON stendur fyrir, er keppt um sæmdarheitið Suðurlandsmeistari og Suðurlandsriddarann sem útskurðarmeistarinn Sigríður Kristjánsdóttir (Sigga á Grund) skar út og Ingibjörg Jónasdóttir og Jónas og Vilhelm Henningssynir gáfu til minningar um Henning Frederiksen. Skilyrði þess að geta unnið Suðurlandsriddarann er að vera annað hvort búsettur á Suðurlandi eða félagsmaður í skákfélagi á Suðurlandi. Að þessu sinni var fyrirkomulag mótsins þannig að tefldar voru níu umferðir með 15 mínútna umhugsunartíma, auk 10 sekúndna fyrir hvern leik.

Fimmtán skákmenn mættu til leiks, þar af tveir alþjóðlegir meistarar. Ellefu af keppendunum eru félagsmenn SSON, tveir í Breiðablik, einn í Víkingaklúbbnum og einn í Dímon í Rangárþingi eystra en vöxtur hefur verið í skáklífi þar að undanförnu. Svo fór að alþjóðlegi meistarinn Davíð Kjartansson bar sigur úr býtum með fullu húsi vinninga. Segja má að Davíð hafi verið á heimavelli því hann er búsettur í Hveragerði. Hann hampaði því Suðurlandsriddaranum í mótslok. Næstur honum kom alþjóðlegi meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson með átta vinninga. Ingimundur Sigurmundsson hafnaði í þriðja sæti með sex og hálfan vinning en einu tapskákir hans voru gegn alþjóðlegu meisturunum tveimur. Sérstök verðlaun voru veitt fyrir bestan árangur þeirra sem voru 16 ára eða yngri. Þau komu í hlut hins efnilega Birkis Hallmundarsonar sem er átta ára.

Oddgeir Ottesen sá um skipulagningu mótsins og skákstjórn.

Úrslit mótsins má sjá hér og fyrir neðan eru myndir frá mótinu sem Íris Tinna Margrétardóttir tók.

Sigurvegari mótsins, Davíð Kjartansson, með Suðurlandsriddarann
Sigurvegari mótsins, Davíð Kjartansson, með Suðurlandsriddarann
Þrír efstu menn mótsins. Frá vinstri: Ingimundur Sigurmundsson, Davíð Kjartansson og Vignir Vatnar Stefánsson.
Úr skáksal
Tveir af stjórnarmönnum SSON, þeir Ingimundur Sigurmundsson og Arnar Breki Grettisson, að tafli.
Erlingur Atli Pálmarsson og Birkir Hallmundarson
Þorsteinn Magnússon og Stefán Arnalds
Erlingur Jensson og Magnús Matthíasson kampakátir að lokinni skák
Vignir Vatnar Stefánsson og Þórður Guðmundsson
Óli Pálsson og Guðmundur Búason
Birkir Hallmundarson gæðir sér á ís sem hann hlaut að launum fyrir bestan árangur 16 ára og yngri
Davíð Kjartansson tryggði sér fullt hús með sigri á Magnúsi Garðarssyni í lokaumferðinni