Margeir Pétursson

 

Evrópukeppni skákfélaga fór fram í síðasta mánuði. Keppnin fór fram í sérlega fallegu umhverfi í bænum Struga sem stendur við hið sögufræga og fagra Ohrid fjallavatn í Norður Makedóníu. Þrjú íslensk félög kepptu á mótinu og stóð Skákfélag Selfoss og nágrennis (SSON) sig langbest þeirra, náði fimmta sæti, sem er frábær árangur en á mótinu tefldu margir af sterkustu skákmönnum heims, þeirra á meðal heimsmeistarinn Magnus Carlsen.

Pistlahöfundur fyrir utan skáksal ásamt Róberti Lagerman, Ingvari Þór Jóhannessyni og Gunnari Frey Rúnarssyni.

Heildarúrslit á mótinu má finna á Chess-Results.

Það stóðu allir í sveit Skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) sig vel á mótinu og samtals náði sveitin í 3,5 vinningi umfram væntan vinningafjölda m.v. stig liðsmanna og andstæðinga þeirra. Þó að Róbert og Dagur hafi lækkað örlítið á stigum þá stóðu þeir sig vel og Dagur komst í góð færi. Til samanburðar náðu sveitir Víkingaklúbbsins og TR um 0,5 vinningi umfram vænts vinningafjölda.

 Stig Stigaframmi-staða  Borða- sæti Stiga-breyting
Alexander Donchenko 2641 2747 4 10,3
Anton Demchenko 2610 2749 2 12
Mikhail Antipov 2607 2625 5 3,8
Semyon Lomasov 2526 2651 6 12,1
Dagur Arngrímsson 2383 2345 14 -2,7
Róbert Lagerman 2300 2266 13 -3,2

 

Skráður varamaður í sveitinni og liðsstjóri var Oddgeir Ottesen og hélt hann einstaklega vel utan um hópinn.

Fimmta sterkasta skákfélag Evrópu.

Fyrir skákfélag Selfoss og nágrennis tefldu 4 erlendir skákmenn, Alexander Donchenko, Anton Demchenko, Mikhail Antipov og Semyon Lomasov. Anton er frá borginni Novorossiysk sem er við Svarta hafið, Mikhail og Semyon eru námsmenn frá Moskvu og Alexander er þýskur stórmeistari. Alexander er fæddur í Moskvu en hefur búið í Þýskalandi frá 5 ára aldri og er eingöngu þýskur ríkisborgari. Foreldrar hans eru fæddir og uppaldir í Sovetríkjunum.

Allir eru þessir skákmenn einkar geðþekkir og eru orðnir rótgrónir liðsmenn SSON og taka virkan þátt í starfsemi félagsins sem er mjög ánægjulegt. Anton Demchenko hlýtur að vera afskaplega ánægður með sig á Íslandi því skemmst er þess að minnast hann sigraði á Evrópumóti einstaklinga í Reykjavík fyrir mánuði síðan sem opnar honum margar dyr.

Bæði Anton og Alexander hafa þannig haldið fyrirlestra í Fischersetri. Daginn eftir að Anton varð Evrópumeistari hélt hann fyrirlestur í Fischersetri fyrir félagsmenn SSON. Kennsluna byggði hann á fyrirlestri sem hann hafði haldið fyrir efnilegustu unglingana í Novorossiysk. Alexander hélt fyrirlestur fyrir félagsmenn SSON í maí eftir að hafa teflt með þeim á Íslandmóti skákfélaga. Kennslan hjá Alexander var öllum opin en þar sem enginn utan félagsins mætti, þá var ákveðið að hafa fyrirlestur Antons bara fyrir félagsmenn SSON. Mikhail hefur kennt nemendum úr SSON á netinu. Allir erlendur keppendur SSON hafa teflt á innanfélagsmótum félagsins á netinu og teflt með félaginu í liðakeppni á netinu. Þess má geta að Andrey Esipenko sem var í sigurliðinu á Evrópumótinu í Struga, náði bara 4. sætinu á meistaramóti SSON í netskák. Hann er í félaginu af því að til stóð að hann myndi keppa með því 2020 þegar keppnin féll niður.

Alexander Donchenko sem tefldi á fyrsta borði er einn af bestu skákmönnum Þýskalands og er núna í október sá stigahæsti. Hann hefur síðustu ár verið talinn einn efnilegasti skákmaður þýskalands. Frá því að hann var 12 ára hefur stundum verið talað um um Alexander, Matthias Blubaum, Rasmus Svane og Dannis Wagner sem Prinsahópinn (Prinzergruppe)- helstu vonir þjóðverja á skáksviðinu. Nú hafa þeir fengið nýjan keppinaut, hinn 16 ára gamla Vincent Keymer sem varð jafn Demchenko á Evrópumeistaramótinu, en var lægri á stigum.

Alexander hefur ekki látið góðan árangur stíga sér til höfuðs og er frábær liðsmaður SSON ekki bara við skákborðið sjálft. Auk þátttöku sinnar í starfi SSON þá mætti hann á þriðjudagsæfingu hjá Taflfélagi Reykjavíkur í maí. Eftir æfinguna tefldi hann hraðskákir við gesti og gangandi, sem er nokkuð sem íslenskir stórmeistarar mættu taka sér til eftirbreytni.

Það má leiða að því getum að öflugur félagslegur stuðningur og góður liðsandi hafi orsakað þessa frábæru frammistöðu SSON.

SSON að tafli.. Mynd: Skák.is/Gerd Densing.

En víkjum nú að keppninni sjálfri. SSON sigraði sænskt lið 6-0 í fyrstu umferð en mættu síðan gífurlega öflugu rússnesku liði Mednyi Vsadnik í annarri umferð. Sjötta borðs maður Rússanna er með hvorki meira né minna en 2657 stig enda tapaðist viðureignin 1,5-4,5. Þetta rússneska lið sigraði síðan á mótinu en í því tefldu þeir Peter Svidler, margfaldur skákmeistari Rússlands, Andrey Esipenko, einn efnilegasti skákmaður heims (sem er reyndar skráður í SSON og tefldi ekki gegn þeim), Vladimir Fedoseev, Kirill Alekseenko, Ponkratov, Sakaeev og Goganov. Á sjötta borði hélt Róbert Lagerman jöfnu við Goganov þrátt fyrir gífurlegan stigamun. Þess má geta að heiti sigursveitarinnar er dregið af ljóði rússneska þjóðskáldsins Alexanders Pushkin.

Í þriðju umferð tók SSON aftur norræna sveit ómjúkum höndum og sigraði Bærum Sjakkselskap frá Noregi 5,5-0,5. Daginn eftir voru andstæðingarnir Stockholms Schack Selskap og fengu Svíarnir lítilsháttar afslátt miðað við fyrri ófarir og töpuðu “aðeins” 2-4.

Róbert, sem tefldi á 6. borði, sat oft ekki við taflborðið heldur hugsaði um stöðuna og næsta leik í fjarlægð frá borðinu.

 

En nú var SSON aftur komið í toppbaráttuna og aftur fengu þeir gífurlega öfluga rússneska sveit.

Skákdeild Kommúnistaflokks Rússlands lögð að velli

Andstæðingarnir í fimmtu umferð voru engir aðrir en rússneska félagið KPRF (Kommunisticheskaya Partiya Rossiiskoi Federatsii) sem er skákdeild rússneska kommúnistaflokksins, en flokkurinn heldur úti margvíslegri starfsemi, þ.á.m. öflugu knattspyrnufélagi. Á pappírnum voru Rússarnir miklu stigahærri en SSON og státuðu af sjálfum Alexander Grischuk á fyrsta borði, sem er einn sterkasti stórmeistari heims til margra ára. Flokkurinn er auðvitað arftaki sovéska kommúnistaflokksins sem réði Sovétríkjunum frá 1917 til 1991 eins og allir vita. Til að koma sínum mönnum í baráttuskap spilaði Oddgeir fyrir þá þjóðsöng Sovétríkjanna í hádeginu.

SSON reyndist síðan sýnd veiði en ekki gefin því þeir sigruðu kommúnistana mjög óvænt.

            KPRF Elóstig Skakfelag Selfoss og nágrennis Elóstig 2½:3½
Grischuk, Alexander 2775 Donchenko, Alexander 2641 ½ – ½
Malakhov, Vladimir 2666 Demchenko, Anton 2610 0 – 1
Zvjaginsev, Vadim 2603 Antipov, Mikhail Al. 2607 ½ – ½
Rublevsky, Sergei 2641 Lomasov, Semyon 2526 0 – 1
Alekseev, Evgeny 2610 Arngrimsson, Dagur 2383 1 – 0
Sychev, Klementy 2556 Lagerman, Robert 2300 ½ – ½

 

Á fyrsta borði fékk Donchenko ívið lakari stöðu gegn Grischuk með svörtu en hélt ró sinni og stýrði erfiðri stöðu í jafnteflishöfn og var jafnvel með betra í lokastöðunni . Á öðru borði sýndi nýbakaður Evrópumeistari sannkallaða meistaratakta. Skákin fer hér á eftir með skýringum eftir Anton Demchenko;

Eftir að hafa hlustað á þjóðsöng Sovétríkjanna 2 tímum áður en SSON mætti sveit Kommúnistaflokksins sagði Anton: „Ég held að rúmlega 70 ára undir stjórn kommúnista sé alveg nóg.“ Á myndinni situr Anton (á 2. borði) gegnt Vladimir Malakhov. Liðsstjóri SSON var alltaf viss um hvernig sú skák færi.

Demchenko – Malakhov 

Á þriðja borði valdi Zvjagintsen fremur meinlausa byrjun með hvítu gegn Mikhail Antipov, SSON, komst ekkert áleiðis og stóð um tíma lakar að vígi, Öruggt jafntefli þar. Á fjórða borðinu vann hinn ungi Semyon Lomasov glæsilega skák af sér miklu stigahærri skákmanni, sem fer hér á eftir með skýringum eftir Semyon:

Rublevsky – Lomasov 

Á fimmta borði fékk Alekseev betri stöðu eftir byrjunina með hvítu gegn Degi Arngrímssyni og sleppti aldrei takinu.

Róbert Lagerman stóð fyrir sínu fyrir SSON. Mynd: Skák.is/Gerd Densig

Síðustu skákinni til að ljúka var ævintýraleg viðureign Róberts Lagerman gegn stórmeistaranum Klementy Sychev. Róbert tefldi byrjunina í 19. aldar stíl og sýnist mér að staðan eftir níu leiki hafi síðast komið upp í skákinni Howard Staunton gegn Hirsch Hermann Silberschmidt sem tefld var í Englandi árið 1844! Sychev var ekki alveg með á nótunum, lék af sér og í 15. leik átti Róbert vinningsleik sem hann missti því miður af. Skákin varð þá nokkurn veginn í jafnvægi og fór út í endatafli sem Róbert tefldi ónákvæmt og lenti í miklum hremmingum. En fyrir tímamörkin í 40. leik lék Rússinn af sér og Róberti tókst að bjarga sér útí hróksendatafl með peði minna sem var jafntefli. Sigur SSON var þar með í höfn.

Róbert Lagerman – Sychev 

Þetta var frækinn sigur sem vakti mikla athygli á mótinu. SSON fékk síðan erfitt danskt lið, Team XtraCon í sjöttu og næstsíðustu umferð, sem var hærra á stigum en þeir. Þrír ungverskir stórmeistarar voru á efstu borðunum fyrir Danina. Með sigri hefði SSON teflt um eitt af þremur efstu sætunum í síðustu umferð en eftir harða viðureign varð niðurstaðan sigur Dana með minnsta mun 3,5-2,5. Þetta hefði þó hæglega getað farið á annan veg því Dagur Arngrímsson var með góða stöðu gegn hinum reynda litháenska stórmeistara Eduardas Rozentalis á fimmta borði og gat t.d. þráskákað ef hann vildi. Dagur freistaði þess að tefla til sigurs og tapaði.

Þar með var eitt af þremur efstu sætunum ekki innan seilingar en ef sigur næðist í síðustu umferð var ennþá góð von um hátt sæti. SSON tefldi þá við öfluga sveit heimamanna Prilep frá Norður Makedóníu, með indverska ungstirnið Gukesh á fyrsta borði. Okkar menn tefldu af miklu öryggi og gersigruðu 5-1. Sá árangur dugði í fimmta sætið sem er frábær árangur og verðlaunasæti á mótinu. Skákdeild rússneska kommúnistaflokksins náði SSON að stigum og marði fjórða sætið á stigaútreikningi sem byggðist á svokölluðum Sonneborn-Berger útreikningi.

Dagur Arngrímsson átti mjög góða spretti á mótinu Mynd: Heimasíða mótsins

Í sveit SSON tefldu sömu menn allar sex skákirnar en keppinautar þeirra voru flestir með tvo varamenn. Þeir Dagur og Róbert stóðu fyllilega fyrir sínu og komu á óvart. Dagur hefur ekki mikið teflt að undanförnu en á greinilega mikið inni ef hann fer að tefla meira. Í þriðju umferð fór hann t.d. ómjúkum höndum um norskan andstæðing sinn:

Dagur Arngrímsson – Anton Darnell

Oddgeir Ottesen lagði til hluta efnis í þennan pistil og þeir Anton Demchenko og Semyon Lomasov eiga þakkir skildar fyrir frábærar skýringar við skákir sínar við skákdeild kommúnistaflokksins. Hinn síðastnefndi tryggði sér stórmeistaratitil með góðum árangri sínum á mótinu. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Semyon mátt bíða í fjögur ár eftir síðasta áfanganum, en fyrstu tvo ávann hann sér aðeins 15 ára.

Vonandi verða fleiri sterkir erlendir skákmenn virkir þátttakendur í starfsemi íslenskra félaga eins og heppnast hefur svo vel hjá Skákfélagi Selfoss og nágrennis. Það yrði mjög til þess fallið að auka styrkleika íslenskra skákmanna og efla unglingastarf.

Margeir Pétursson