Sigurvegarinn Róbert Lagerman

Tólf skákmenn tóku þátt í hraðskákmóti SSON sem var haldið 18. maí sl. í Fischersetrinu. Skemmst er frá því að segja að FIDE-meistarinn snjalli Róbert Lagerman var óstöðvandi og sigraði á mótinu með fullu húsi vinninga, 7 vinningum í 7 skákum, og var raunar búinn að tryggja sér sigurinn fyrir lokaumferðina.

Keppnin um næstu sæti var harðari en svo fór að Hagabóndinn knái Úlfhéðinn Sigurmundsson tryggði sér silfrið með 5 vinninga og fast á hæla honum fylgdi Magnús Matthíasson með 4,5 vinninga.

Sigurvegarinn Róbert Lagerman og silfurhafinn Úlfhéðinn Sigurmundsson etja kappi. Bronsverðlaunahafinn Magnús Matthíasson fylgist með.

Umhugsunartíminn var 5+3, þ.e. 5 mínútur auk 3 sekúndna fyrir hvern leik. Úrslit mótsins má sjá hér.

Verðlaunahafarnir kampakátir að móti loknu. Frá vinstri: Úlfhéðinn Sigurmundsson, Róbert Lagerman og Magnús Matthíasson.