Íslandsmóti skákfélaga sem hófst haustið 2019 lauk loks um helgina. A-sveit SSON hafnaði þar í 2. sæti eftir harða baráttu um efstu sætin við A-sveitir Víkingaklúbbsins og Hugins. Svo fór að Víkingaklúbburinn sigraði með 53 vinninga eftir 9 umferðir (á 8 borðum), sveit SSON hlaut 48 vinninga og sveit Hugins 46,5 vinninga. Þetta mun vera í fyrsta sinn í rúmlega 30 ára sögu SSON sem félagið vinnur til verðlauna á mótinu.

Um helgina tefldu fyrir A-sveit SSON Alexander Donchencko (2660), Anton Demchenko (2599), Bragi Þorfinnsson (2432), Arnar Gunnarsson (2420), Róbert Lagerman (2298), Björgvin Smári Guðmundsson (1964), Oddgeir Ágúst Ottesen (1765), Elvar Már Sigurðsson (1737), Magnús Matthíasson (1694) og Þorsteinn Magnússon (1629). Í fyrri hlutanum tefldu að auki Mikhail Antipov (2609), Semyon Lomasov (2525), Henrik Danielsen (2516), Dagur Arngrímsson (2383) og Artem Galaktionov (2333). Oddgeir Ágúst Ottesen sá um skipulagningu og liðsstjórn af hálfu félagsins.

Frá vinstri: Alexander Donchenko, Anton Demchenko, Oddgeir Ágúst Ottesen, Elvar Már Sigurðsson, Þorsteinn Magnússon, Björgvin Smári Guðmundsson, Bragi Þorfinnsson og Róbert Lagerman.

Íslandsmót skákfélaga er sveitakeppni þar sem fram til þessa hefur verið teflt á 8 borðum í 1. deild, skipaðri 10 sveitum, en 6 borðum í 2., 3. og 4. deild. Keppnin hefur að jafnaði farið fram í tveimur hlutum, þeim fyrri að hausti og þeim síðari að vori. Vegna heimsfaraldurs Covid-19 var síðari hluta þessa móts ítrekað frestað og svo fór að síðari hluta keppni í 3. og 4. deild var að lokum aflýst og staðan að loknum fyrri hlutanum látin gilda sem lokastaða. B-sveit SSON var efst í 4. deild þegar þar var komið sögu og vann sér því sæti í 3. deild. Í haust hefst keppni í nýrri 6 liða úrvalsdeild. Með árangri sínum um helgina tryggði A-sveit SSON sér sæti í henni og jafnframt keppnisrétt í Evrópukeppni skákfélaga.