Atskákmót SSON sem fram fór fimmtudagskvöldið 25. febrúar var vel sótt en alls tóku fimmtán manns þátt. Þetta var fyrsta mótið á vegum félagsins eftir að slakað var á samkomutakmörkunum og mótahald aftur leyft. Tefldar voru fjórar umferðir með 15 mínútna umhugsunartíma að viðbættum fimm sekúndum fyrir hvern leik (15+5). Ólafur Hlynur Guðmarsson sigraði glæsilega með fullu húsi vinninga. Hann vann meðal annars þá sem urðu í 2. og 3. sæti, bræðurna Úlfhéðin Sigurmundsson sem varð annar og Ingimund Sigurmundsson sem varð þriðji, en þeir hlutu báðir þrjá vinninga. Erlingur Jensson og Þrándur Ingvarsson fengu einnig þrjá vinninga. Mótið var reiknað til alþjóðlegra atskákstiga. Lokastöðuna og úrslit einstakra skáka má sjá hér. Næsta mót með sama sniði verður haldið fimmtudagskvöldið 25. mars kl. 19:30 í Fischersetri.

Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá mótinu, sem Ingi Þór Hafdísarson tók.

Arnar Breki Grettisson með hvítt gegn Sigurði Böðvarssyni.
Sigurður Heiðar Höskuldsson (með hvítt) og Ingimundur Sigurmundsson etja kappi við einvígisborðið. María Ósk Guðbjartsdóttir fylgist með.
Þorsteinn Magnússon með hvítt gegn Sigurði Heiðari Höskuldssyni. Á næsta borði við hliðina sést Þrándur Ingvarsson.
Sigurvegari mótsins, Ólafur Hlynur Guðmarsson, er hér með hvítt gegn Úlfhéðni Sigurmundssyni.
Úlfhéðinn Sigurmundsson gegn Ingvari Þrándarsyni.
Þorsteinn Magnússon með hvítt gegn Emil Sigurðarsyni. Fjær sést Ingvar Þrándarson tefla við Úlfhéðin Sigurmundsson.
Þórður Guðmundsson með hvítt gegn Úlfhéðni Sigurmundssyni. Fjær sjást Erlingur Jensson og Þrándur Ingarsson tefla og Óli Pálsson að tafli lengst til hægri.