Í tilefni af 30 ára afmæli Skákfélags Selfoss og nágrennis verður haldin alþjóðleg skákhátíð á Hótel Selfossi dagana 19.-29. nóvember, sem ber nafnið Ísey skyr-skákhátíðin. Aðalviðburður hátíðarinnar verður heimsmeistaramót í skák, þar sem etja munu kappi 10 skákmenn og -konur sem samtals hafa unnið 14 heimsmeistaratitla í mismunandi aldursflokkum.

Fjórir Íslendingar hafa unnið heimsmeistaratitil í skák. Jón L. Árnason varð heimsmeistari 17 ára og yngri árið 1977, Hannes Hlífar Stefánsson og Héðinn Steingrímsson urðu heimsmeistarar árið 1987 í flokki 16 ára og yngri og í flokki 12 ára og yngri. Fyrir aldarfjórðingi eignuðust Íslendingar síðast heimsmeistara í skák þegar Helgi Áss Grétarsson varð heimsmeistari ungmenna (20 ára og yngri) árið 1994. Allir íslensku heimsmeistararnir munu tefla á skákhátíðinni fyrir utan Jón L. Árnason.

Erlendir keppendur „heimsmeistaramótsins“ koma frá fjórum heimsálfum, frá Kasakstan í austri til Brasilíu í vestri. Á meðal keppenda eru tvær ungar skákkonur frá Kasakstan og Íran sem eru meðal bestu skákkvenna í heimi. Dinara Saduakassova frá Kasakstan hefur þrívegis orðið heimsmeistari í mismunandi flokkum og síðast heimsmeistari kvenna 20 ára og yngri. Sarasadat Khademalsharie frá Íran hefur bæði orðið heimsmeistari í flokki 12 ára og yngri og heimsmeistari 16 ára og yngri í hraðskák. Frá Egyptalandi kemur Ahmed Adly sem varð heimsmeistari 20 ára og yngri 2007. Frá Brasilíu kemur Rafael Leitão sem varð heimsmeistari 12 ára og yngri 1991 og heimsmeistari 18 ára og yngri árið 1996. Hinn 17 ára Semyon Lomasov, heimsmeistari 14 ára og yngri 2016, er yngsti þátttakandinn í mótinu. Hann varð einnig Rússlandsmeistari 21 árs og yngri árið 2018. Mikhail Antipov heimsmeistari 20 ára og yngri 2015 teflir einnig á mótinu. Þjálfari Antipovs, Sergei Dolmatov, tefldi á þremur alþjóðlegum skákmótum á Íslandi á 9. og 10. áratug síðustu aldar og vann Reykjavíkurmótið 1991, ásamt fleirum. Evrópumeistarinn í hraðskák árið 2017 sem varð heimsmeistari 14 ára og yngri 2003, Sergei Zhilgalko frá Hvíta Rússlandi, verður einnig meðal þátttakenda.

Vel fer á því að alþjóðlega skákhátiðin fari fram á Selfossi. Í nágrenninu í kirkjugarðinum í Laugardælum hvílir Bobby Fischer, þekktasti skákmaður allra tíma, og komið hefur verið á fót safni um afrek hans þar. Bobby Fischer má kalla fimmta íslenski heimsmeistarinn í ljósi þess að hann bjó á Íslandi síðustu áæviár sín og varð íslenskur ríkisborgari. Enginn einn atburður hefur haft eins mikil áhrif á skákiðkun á Íslandi og heimsmeistaraeinvígi Boris Spasskys og Robert J. Fischers í Reykjavík 1972. Einvigið vakti heimsathygli og jók áhuga á skák um allan heim og auðvitað ekki síst á Íslandi. Heimsmeistaraeinvígið átti án efa stóran þátt í því að Íslendingar eignuðust marga stórmeistara í skák.

Auk „heimsmeistaramótsins“ verða margir aðrir viðburðir á á alþjóðlegu skákhátíðinni. Haldið verður opna Suðurlandsmótið í skák, Íslandsmót í  Fischer slembiskákskákkennaranámskeiðskákdómaranámskeiðbarnaskákmót, hraðskákmót og málþing um stöðu skákíþróttarinnar á Íslandi. Skákkennara- og skákdómaranámskeiðið er haldið í samstarfi Skákfélags Selfoss og nágrennis og Skáksambands Íslands.

Opna Suðurlandsmótið í skák er 7 umferða skákmót með 600.000 kr. í verðlaunafé. Auk þess að keppa um verðlaunafé er att kappi um Suðurlandsriddarann sem skorinn er út af útskurðarmeistaranum Sigríði Jónu Kristjánsdóttur (Siggu á Grund). Íslandsmótið í Fischer slembiskák er atskákmót og fer það fram laugardaginn 23. nóvember.

Skákíþróttin hefur lengi verið talin þjóðaríþrótt Íslendinga og er Ísland þekkt fyrir skákmenn sína og skákáhuga. Efalaust bar hæst frábær árangur Friðriks Ólafssonar og öflugs landsliðs á 9. áratugnum, auk einstaklingsárangurs Jóhanns Hjartarsonar. Einnig hafa menn undrast þann fjölda stórmeistara sem Íslendingar hafa átt í gegnum tíðina. Annað sem vekur ekki síður athygli er sú staðreynd að hin fámenna íslenska þjóð hefur eignast fjóra heimsmeistara í skák. Skipuleggjendur skákhátíðarinnar á Selfossi vilja minna á og vekja athygli á þessum frábæra árangri íslensku heimsmeistaranna með því að halda „heimsmeistaramót“, alþjóðlega skákhátíð, okkar heimsmeisturum og þeim erlendu til heiðurs. 

Heimasíða mótsins