Firmakeppni Skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) fór fram laugardaginn 30. október 2021 í veislusalnum Risinu sem er á 2. hæð Mjólkurbúsins mathallar í nýja miðbæ Selfoss. Alls tóku 28 skákmenn þátt í mótinu og tefldi hver þeirra fyrir hönd eins af þeim fyrirtækjum sem styrktu félagið í tengslum við mótið. Á meðal þátttakenda voru stórmeistari, alþjóðlegur meistari og tveir FIDE-meistarar. Keppendur voru á ýmsum aldri. Sá yngsti var Magnús Tryggvi Birgisson, sem er 10 ára, og sá elsti Guðmundur Búason, sem er 75 ára. Magnús Tryggvi tefldi fyrir hönd Árborgar og Guðmundur fyrir hönd Hagbókar ehf. Tefldar voru 9 umferðir og var umhugsunartíminn 4 mínútur auk 2 sekúndna til viðbótar fyrir hvern leik. Skákstjóri var Róbert Lagerman.
Svo fór að FIDE-meistarinn Halldór Grétar Einarsson, sem tefldi fyrir hönd Auðhumlu, sigraði með 8 vinninga. Í öðru sæti varð Magnús Pálmi Örnólfsson, sem tefldi fyrir Gullfosskaffi og alþjóðlegi meistarinn Arnar Gunnarsson, sem tefldi fyrir LARSEN hönnun og ráðgjöf, varð þriðji en þeir fengu báðir 7 vinninga. Kvennaverðlaunin komu í hlut Maríu Óskar Guðbjartsdóttur, sem tefldi fyrir Kjörís, en hún var raunar eina konan á mótinu að þessu sinni.
Frammistaða heimamannsins Ingimundar Sigurmundssonar vakti verðskuldaða athygli en honum tókst að leggja að velli bæði stórmeistarann Braga Þorfinnsson og alþjóðlega meistarann Arnar Gunnarsson. Ingimundur er formaður SSON en Bragi og Arnar eru báðir liðsmenn félagsins. Gárungar höfðu á orði að virðing liðsmanna fyrir formanninum væri slík að þeir þyrðu ekki annað en að láta hann vinna sig! Ingimundur tefldi fyrir hönd Sigtúns þróunarfélags.
Heildarúrslit mótsins má finna hér. SSON vill þakka öllum þeim aðilum sem studdu félagið í tengslum við mótið. Þar er um að ræða eftirtalin fyrirtæki og stofnanir:
Auðhumla
Gullfosskaffi
LARSEN hönnun og ráðgjöf
Mjólkursamsalan
Fossraf
Sigtún þróunarfélag
Tryggingamiðstöðin
Hveragerðisbær
Sauðfjársæðingastöðin
Flúðasveppir
Súperlagnir
Landsbankinn Hvolsvelli
Lögmenn Suðurlandi
ÞH Blikk
Eðalbyggingar
Dvalarheimilið Ás
Brim
Heimilistæki
Set ehf.
Arionbanki Selfossi
Hagbók
Sláturfélag Suðurlands
Garðyrkjustöðin Espiflöt
Sölufélag garðyrkjumanna
Bílverk
Íslenska gámafélagið
Árborg
Kjörís
Solid Clouds
Vörðufell
Fóðurblandan
Lagnaþjónustan
Kökugerð HP