Stjórn Skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) ákvað á fundi sínum 11. ágúst 2020 að veita sterkustu íslensku liðsmönnum félagsins afreksstyrki að fjárhæð 50.000 kr. til að tefla á skákmótum erlendis á árinu. Framboð af sterkum skákmótum hefur verið takmarkað það sem af er árinu (nema á netinu) en vonir standa þó til þess að unnt verði að halda sterk mót á síðustu mánuðum ársins. Nauðsynlegt er fyrir afreksfólk í skák að taka þátt í sterkum mótum og reyna sig gegn erlendum skákmönnum. Vilyrði fyrir afreksstyrkjum SSON á árinu 2020 (háð þátttöku á skákmóti erlendis) fengu stórmeistararnir Henrik Danielson og Bragi Þorfinnsson, alþjóðlegu meistararnir Arnar Gunnarsson og Dagur Arngrímsson og Fide-meistarinn Róbert Lagerman.

Stjórnin ákvað einnig að bjóða ungum iðkendum í félaginu upp á niðurgreidda einkaþjálfun hjá sterkum erlendum skákmönnum og þjálfurum í gegnum netið. Rússneski stórmeistarinn Mikhail Antipov mun sjá um einkakennsluna í fyrstu lotunni. Antipov varð heimsmeistari 20 ára og yngri 2015. Hann var lengi í einkakennslu hjá Sergei Dolmatov, sem varð heimsmeistari 20 ára og yngri 1978. Þeir sem hafa áhuga á að fá niðurgreidda einkakennslu hjá SSON eða vilja frekari upplýsingar um hana geta haft samband við Oddgeir Ottesen (oddgeiragust@gmail.com).