Firmakeppni Skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) fór fram á Hótel Selfossi sunnudaginn 7. júní sl. Alls tóku 34 skákmenn þátt í mótinu og tefldi hver þeirra fyrir hönd eins af þeim fyrirtækjum sem styrktu félagið í tengslum við mótið. Á meðal þátttakenda voru þrír stórmeistarar, þrír alþjóðlegir meistarar og einn FIDE-meistari. Keppendur voru á ýmsum aldri, sá yngsti fæddur 2013 og sá elsti 1944. Athygli vakti hve margir efnilegir skákmenn af yngri kynslóðinni mættu til leiks, sérstaklega frá skákdeild Breiðabliks. Tefldar voru 9 umferðir og var umhugsunartíminn 4 mínútur auk 2 sekúndna til viðbótar fyrir hvern leik.
Mótið var æsispennandi og réðust úrslit ekki fyrr en í lokaumferðinni. Svo fór að stórmeistarinn Helgi Áss Grétarsson hafði sigur með 7,5 vinninga. Hann tefldi fyrir hönd Hótel Selfoss. Jafnir honum að vinningum urðu stórmeistarinn Hannes Hlífar Stefánsson, sem tefldi fyrir SG Húseiningar, og alþjóðlegi meistarinn Arnar Gunnarsson, sem tefldi fyrir Ísey skyr. Fjórði, með 6,5 vinninga, varð FIDE-meistarinn Vignir Vatnar Stefánsson sem tefldi fyrir Heimilistæki.
Ein athyglisverðustu úrslit mótsins urðu í lokaumferðinni þegar heimamaðurinn Úlfhéðinn Sigurmundsson, sem tefldi fyrir Hótel Selfoss, lagði Vigni Vatnar að velli. Með því tryggði Úlfhéðinn sér 7. sætið á mótinu, með 6 vinninga, og gerði um leið út um möguleika Vignis á að sigra á mótinu.
Jafnir Úlfhéðni að vinningum en hærri að stigum urðu stórmeistarinn Bragi Þorfinnsson, sem tefldi fyrir Brim hf., og Gauti Páll Jónsson sem tefldi fyrir VÍS. Bragi Hafnaði í 5. sæti og Gauti Páll í því 6. Jóhanna Björg Jóhannsdóttir, sem tefldi fyrir Kjörís, varð efst kvenna á mótinu með 5 vinninga. Hér má sjá heildarúrslit firmakeppninnar og hér fyrir neðan eru nokkrar myndir frá henni til viðbótar. SSON vill þakka öllum þeim sem studdu félagið með einum eða öðrum hætti í tengslum við mótið en þar er um að ræða eftirtalin fyrirtæki og stofnanir (talin í þeirri röð sem fulltrúar þeirra höfnuðu í keppninni):
Hótel Selfoss
SG Húseiningar
Ísey skyr
Heimilistæki
SS
Brim hf.
Urður bókafélag
sveitarfélagið Árborg
VÍS
Landsbankinn
Kjörís
Hvalur hf.
Sauðfjársæðingastöðin
Dvalarheimilið Ás
Heimilið og jólin
Jáverk
Ögurvík ehf.
Solid Clouds
Auðhumla
Sumarhúsið og Garðurinn
Flúðasveppir
Fóðurblandan
Geysir glíma
Eðalbyggingar
Fiskvinnslan Kambur
Mjólkursamsalan
Gullfosskaffi
Arion banki
Vignir G. Jónsson hf.
Garðyrkjustöðin Espiflöt
Norðanfiskur ehf.
Hafnarnes Ver
Sölufélag Garðyrkjumanna