Meistaramót Skákfélags Selfoss og nágrennis fór fram 14. nóvember. Flestir sterkustu skákmenn félagsins tóku þátt og voru þátttakendur 39 talsins. Sigurvegari mótsins var stórmeistarinn Mikhail Antipov. Hann náði 8,5 vinningum af 9 mögulegum sem er svo sannarlega góður árangur. Í öðru sæti var Artem Galaktionov og í þriðja sæti Alexander Donchenko. Irina Utiatskaja, eiginkona sigurvegarans, varð efst kvenna. Sigurvegari mótsins náði að vinna bæði næst stigahæsta skákmann Þýskalands, Alexander Donchenko og Andrey Esipenko, einn af 50 sterkustu skákmönnum heims, sem í ár varð bæði Ólympíumeistari í netskák með Rússlandi og Evrópumeistari 18 ára og yngri í netskák.
Mikhail Antipov er einn af skákkennurum skákfélagins og hefur hann kennt ungum skákmönnum í félaginu í haust í gegnum netið. Nemendur hans hafa tekið stórstígum framförum og gaman verður að sjá hvernig þeim mun ganga á næstu árum.
Margar skákmenn stóðu sig vel í mótinu. Efstir Íslendinga með 6 vinninga voru Hlíðar Þór Hreinsson og Róbert Lagerman. Róbert lagði m.a. tékkneska stórmeistarann Vojtech Plat að velli. Róbert náði þó ekki að sigra Odd Þorra Viðarsson, þrátt fyrir að vera fyrirfram talinn töluvert sigurstranglegri. Selfyssingurinn Sverrir Unnarsson náði 5,5 vinningum og lagði einnig einn stórmeistara að velli.
Mótið fór fram á vefsíðunni www.chess.com. Allir sem eru með notendanafn á þeirri síðu gátu fylgst með meistaramóti félagsins. Athyglisvert var að sjá hvað margir skákmenn víðsvegar úr heiminum horfðu á skákir félagsmanna.