Á myndinni eru liðsmenn A-sveitar SSON. Í efri röð eru frá vinstri til hægri: Dagur Arngrímsson, Mikhail Antipov, Róbert Lagerman, Semyon Lomasov og Bragi Þorfinnsson. Í neðri röð eru frá vinstri til hægri: Andrey Esipenko, Anton Demchenko, Arnar Gunnarsson, Artem Galaktionov og Rafael Leitao. Myndvinnsla: Sveinbjörn Jón Ásgrímsson.
A-sveit Skákfélags Selfoss og nágrennis (SSON) sigraði í dag á óopinberu Norðurlandamóti skákfélaga í atskák sem fram fór á netinu um páskahelgina. A-sveit Víkingaklúbbsins varð í öðru sæti og norska liðið Oslo Schakselskap (OSS) í því þriðja. Mikil spenna var fyrir lokaumferð mótsins þar sem fjórar sveitir áttu enn allar möguleika á sigri, þar á meðal sænska sveitin Wasa SK sem A-lið SSON mætti í lokaumferðinni. Í fyrri viðureign SSON og Wasa í lokaumferðinni sigraði SSON með 3,5 vinningum gegn 2,5 en í þeirri síðari sigraði SSON örugglega með 5,5 vinningum gegn 0,5 og tryggði sér með því sigur á mótinu. Víkingaklúbburinn tryggði sér annað sætið með sigri gegn OSS í lokaumferðinni. Alls tóku 67 sveitir þátt í mótinu. B-sveit SSON hafnaði í 44. sæti.
B-lið SSON. Efri röð frá vinstri: Þorsteinn Magnússon, Úlfhéðinn Sigurmundsson, Þórður Guðmundsson, Erlingur Jensson og Ingimundur Sigurmundsson. Neðri röð frá vinstri: Oddgeir Ottesen, Oddur Ingimarsson , Oddur Þorri Viðarsson, Sveinbjörn Jón Ásgrímsson og Ingvar Birgisson.
Umhugsunartími var 10 mínútur auk tveggja sekúndna til viðbótar fyrir hvern leik. Teflt var á sex borðum í hverri umferð og tefldar voru sjö tvöfaldar umferðir, nánar tiltekið þannig að þátttakendur tefldu tvisvar við andstæðinga sína í hverri umferð. Skáksamband Íslands sá um framkvæmd mótsins.
Af mörgum áhugaverðum viðureignum lokaumferðarinnar má nefna að þar tefldi hinn rússneski Andrey Esipenko á 1. borði fyrir A-sveit SSON gegn Egyptanum Bassem Amin. Amin er ríkjandi Afríkumeistari í kappskák og í 44. sæti á heimslista virkra skákmanna en Esipenko er í 51. sæti á sama lista. Þar mættust því tveir skákmenn sem eru mjög framarlega á heimsvísu. Fram til þessa hafði Esipenko ekki unnið Amin í skák. Það breyttist í dag því annarri skákinni lauk með sigri Esipenko og hinni með jafntefli.
A-sveit SSON var fjölþjóðleg. Hana skipuðu Rússarnir Andrey Esipenko, Anton Demchenko, Mikhail Antipov, Semyon Lomasov og Artem Galaktionov; Brasilíumaðurinn Rafael Leitao og Íslendingarnir Bragi Þorfinnsson, Arnar Gunnarsson, Dagur Arngrímsson og Róbert Lagermann. Þess má geta að Antipov, Lomasov og Leitao eru allir fyrrverandi heimsmeistarar í yngri aldursflokkum og tóku þátt í heimsmeistaramótinu á Selfossi í nóvember síðastliðnum. Þá er Bragi handhafi Suðurlandsriddarans sem keppt var um í fyrsta sinn á Opna Suðurlandsmótinu sem einnig fór fram í nóvember. B-sveitina skipuðu Ingimundur Sigurmundsson, Úlfhéðinn Sigurmundsson, Oddgeir Ágúst Ottesen, Ingvar Birgisson, Erlingur Jensson, Þorsteinn Magnússon, Þórður Guðmundsson, Sveinbjörn Jón Ásgrímsson, Oddur Ingimarsson og Oddur Þorri Viðarsson.